Nám og verkefni

Leikskólinn starfar samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla sem gefin er út af Menntamálaráðuneytinu. Í starfinu er stuðst við Fjölgreindakenningu Howards Gardner og er það gert dags daglega á deildum sem og í öllu hópastarfi. Frjálsi leikurinn er rauði þráðurinn í starfinu en einnig er unnið í hópum er samanstanda af 5 - 8 börnum og einum hópstjóra. Það hópastarf sem er í gangi í hverri viku er eftirfarandi:

Þemastarf: þar sem unnið er markvisst að ákveðnu verkefni. Lögð er áhersla á að koma inn á hverja greind fyrir sig í að minnsta kosti tvisvar á því tímabili sem viðkomandi þema stendur yfir.

Frjáls hópatími: þar eru mismunandi verkefni í gangi, út frá fyrirfram útbúnum hugmyndabanka. Hugmyndabankinn er byggður upp með hliðsjón af fjölgreindunum. Þessir tímar eru einu sinni í viku í a.m.k. 30 mínútur.

Hreyfistund: hvert barn fer einu sinni í viku í markvissa hreyfistund, með undantekningu frá Dropadeild. Hver hreyfistund varir í um það bil 40 mínútur og þar fara fram skipulagðir hópleikir sem og einstaklingsþrautir.

Listasmiðja: þangað fer hvert barn einu sinni í viku. Þar er lögð áhersla á að kynna ýmsan efnivið fyrir börnunum og að þau fái tækifæri til að prófa ýmsar aðferðir við að skapa.

Tónlist: börnin fara einu sinni í viku með deildarstarfsmanni í tónlistartíma. Þar er sungið, spilað á hljóðfæri, dansað, rætt um grunnþætti tónlistar og ýmislegt annað gert tengt tónlist.

Útivera: flesta daga fara börnin út að minnsta kosti einu sinni. Lengd útiverunnar fer eftir árstíma og á sumrin erum við til að mynda mikið úti.

Elstu barna verkefni eru þrisvar sinnum í viku fyrir þau börn sem eru í elsta árgangi leikskólans. Þar er unnið með íslenska tungu og stærðfræðiþekkingu.

Söngsalur: á föstudögum hittast allir í salnum og syngja saman. Deildarnar skiptast á að stjórna söngsal og sjá þá um að velja þau lög sem sungin verða, auk þess sem hinar deildarnar fá að velja sér óskalag.

Stóra valið er einu sinni í viku, á föstudögum að loknum söngsal. Þá er skólanum skipt upp í mismunandi svæði eftir greindum og velja börnin það svæði er þau vilja vinna á hverju sinni.

  • Salur (hreyfistund): líkams- og hreyfigreind, samskiptagreind og málgreind.
  • Listasmiðja (myndlist): rýmisgreind, samskiptagreind og málgreind.
  • Holukubbar: rýmisgreind, samskiptagreind, málgreind og rök- og stærðfræðigreind.
  • Mánadeild (einingakubbar, legó, smellukubbar): rýmisgreind, samskiptagreind og málgreind.
  • Stjörnudeild (dúkkukrókur, dýrin og húsgögn): samskipta- og sjálfsþekkingargreind, umhverfisgreind og málgreind.
  • Dropadeild (sögustund, föndur, tónlist): málgreind, rýmisgreind og tónlistargreind.
  • Sólskinsdeild (leir, teikna og perla): rýmisgreind, rök- og stærðfræðigreind, málgreind og hreyfigreind.

 


Foreldravefur